Barðsneshlaup

Tuttugasta Barðsneshlaupið verður haldið á Norðfirði laugardaginn 5. ágúst næstkomandi. Hlaupið hefur ávallt verið haldið um verslunarmannahelgi í tengslum við fjölskylduhátíðina Neistaflug en hugmynd skipuleggjenda var að þar gætu hlauparar mætt með fjölskyldu sína og notið þeirrar dagskrár sem í boði væri, auk þess að taka þátt í skemmtilegu fjallaskokki.

Viljum við því biðja áhugasama um að fylgja okkur á Facebook en þar mun framkvæmdin vera kynnt betur sem og hugsanlegar nýjungar á hlaupinu.

Vegalengdin frá Barðsnesi er um 27 km en einnig er í boði hálft hlaup, þá er hlaupið frá Hellisfirði en sú vegalengd er um 13 km. Bæði hlaupin enda svo í miðbæ Neskaupstaðar.

Byrjað er á bátsferð frá Neskaupstað yfir Norðfjarðarflóa að Barðsnesi en hlaupið er um firðina þrjá sem ganga inn úr flóanum: Viðfjörð, Hellisfjörð og Norðfjörð. Hellisfjarðarhlaupið er frá Sveinsstöðum í Hellisfirði, 13 km.
 Leiðin er lengst af fjárgötur og hestagötur og minnir víða á Laugaveginn fyrir þá sem hann þekkja.


Fyrsta hlaupið var haldið árið 1997 með fjórum keppendum en mest hafa þeir verið um 80
. Alltaf hefur tekist að halda hlaupið, (7-9-13) þrátt fyrir að í einhver skipti hafi veður og þoka gert okkur erfitt fyrir. Þá höfum við verið blessunarlega laus við alvarleg slys þó einverjir hafi nú hruflað sig sem ekki er óeðlilegt í svona fjallahlaupi en fólk þarf að vera í sæmilegri þjálfun fyrir lengra hlaupið. Skokkarar sem geta vel hlaupið t.d. 10 km ættu að geta farið það styttra og haft gaman að.

Skráning er á hlaup.is og er gjaldið 6.000 kr. fyrir lengra hlaupið en 4.500 kr. fyrir það styttra.

Frekari upplýsingar um hlaupið má finna á heimasíðu og fésbókarsíðu hlaupsins sem og hjá Rúnari í síma 825-7061 og Jóa í síma 866-2230.